Hundasýningar

Á hundasýningum fer fram gæðadómur hunda. Dómari metur byggingu og hreyfingar hunds með tilliti til FCI ræktunarstaðals sem gefinn er út í upprunalandi tegundar. Dómarinn skoðar tennur hunds, kannar hvort tvö eðlileg eistu séu til staðar á karlhundum, skoðar feldgerð og byggingu meðal annars með því að þreifa hundinn. Einnig er bygging að hluta til metin útfrá hreyfingum á hlaupum. Í gæðadómi gefur dómari einkunn í samræmi við það hversu vel hundur fellur að hans mati að staðli tegundarinnar. Dómari gefur einnig ritaða umsögn sem eigandi hunds fær afrit af. Bestu hundar og bestu tíkur hverju sinni keppa svo um sæti 1-4 að því gefnu að þeir hafi fengið Excellent eða Very good í einkunn. Besti rakki og besta tík keppa svo sín á milli um að verða besti hundur tegundar og besti hundur af gagnstæðu kyni. Einkunnir og sætaröðun er gefin til kynna með borðum í ákveðnum litum. Einnig eru borðar fyrir meistaraefni, heiðursverðlaun og meistarastig svo eitthvað sé nefnt.

Á hundasýningum eru afmarkaðir sýningahringir og eru hundar af sömu tegund sýndir í sama hring. Hverri tegund er skipt upp í flokka eftir aldri, afrekum og kyni: ungliðaflokkur 9-18 mánaða, unghundaflokkur 15-24 mánaða, hundar eldri en 24 mánaða eru sýndir í opnum flokki. Sýningameistarar, bæði íslenskir og alþjóðlegir eru sýndir í meistaraflokki. Hundar sem hafa náð tilteknum árangri á veiðiprófum má sýna í vinnu/veiðihundaflokki. Til að sýna hund í tegundahópi 7 í veiðihundaflokki þarf hann að hafa náð a.m.k. 2. einkunn í unghundaflokki eða 3. í opnum flokki og þeir þurfa að vera orðnir 15. mánaða gamlir. Hver hundur er skráður í einn flokk. Hér fyrir neðan má sjá útskýringar á flokkum. Skráning hunda á sýningu fer fram á skrifstofu HRFÍ. Skráningafrestur er auglýstur á heimasíðu félagsins, heimasíðu DESÍ og víðar. Þegar hundur er sýndur þarf sýnandi að framkvæma ákveðnar rútínur í hringnum með hundinum, þetta er gert til að auðvelda dómara að meta byggingu. Þó að þessar rútínur séu einfaldar þá mælum við með að fólk mæti með hundana á sýningaþjálfanir til að undirbúa bæði sig og hundinn. DESÍ mun bjóða upp á sýningaþjálfanir sem hefjast að jafnaði þremur vikum fyrir hverja sýningu og verða einu sinni í viku. Tíma- og dagsetningar verða auglýstar á heimasíðu og á Facebook.

Einkunnir

Í sýningareglum á heimasíðu HRFÍ eru eftirfarandi skýringar á einkunnum.

Excellent: Hundurinn er sérlega dæmigerður fyrir hundakynið, sýndur í frábæru formi og í góðu andlegu jafnvægi; stórglæsilegur og af háum gæðum. Kostir hans sem fulltrúa hundakynsins eru svo augljósir að óverulegir útlitsgallar draga hann ekki niður. Tilhlýðlegur munur er á tík og rakka.

Very good: Hundurinn er dæmigerður fyrir hundakynið og bygging hans er í góðu jafnvægi og líkamlegt form er gott. Minniháttar gallar eru þolanlegir. Þessa einkunn má einungis veita hundi sem býr yfir glæsileik.

Good: Hundurinn er dæmigerður, kostir hans eru mikilvægari en gallarnir og getur hann talist góður fulltrúi hundakynsins.

Sufficient: Hundurinn er dæmigerður, en skortir þó einhverja áskilda eiginleika hundakynsins eða er í lélegu líkamlegu formi.

 1. einkunn (Disqualified): Hundurinn er ekki dæmigerður fyrir hundakynið; hann sýnir árásargirni eða hegðun sem er í algeru ósamræmi við eiginleika kynsins; hann er ekki með tvö eðlileg og rétt staðsett eistu, hann er með tann- eða kjálkagalla, litar- eða feldgalla eða er albínói. Þessi einkunn er einnig gefin hundi þar sem gerð eða bygging hans kemur niður á heilsu hans eða almennu heilbrigði og hundi sem er með galla sem er óásættanlegur (disqualifying) samkvæmt ræktunarmarkmiði hundakynsins. Ástæður 0 einkunnar skal alltaf tilgreina í umsögn og á niðurstöðublaði. Hundur, sem í þrígang hefur fengið einkunnina 0 vegna skapgerðar/hegðunar, skal útilokaður frá keppni á hundasýningum HRFÍ.

Hundar sem ekki hljóta einhverja af ofangreindum einkunnum, ljúka keppni með umsögnina Ekki hægt að dæma (EHD). Þessi umsögn er gefin hundi sem á því augnabliki sem dómarinn er að dæma hann, hreyfir sig ekki, víkur sér undan handfjötlun og skoðun dómara t.d. á tönnum, líkamsbyggingu, skotti og eistum, hoppar stöðugt upp á sýnanda, reynir að komast út úr hringnum eða hegðar sér þannig eða er þannig á sig kominn líkamlega að ekki er hægt að dæma hreyfingar hans eða líkamsbyggingu. Sama getur átt við um hund sem dómari telur sig sjá merki um eða hefur ríka ástæðu til að gruna að aðgerð hafi verið gerð á eða hann meðhöndlaður þannig að það geti haft áhrif á dóm. Ástæðu umsagnarinnar skal getið í umsögn og á niðurstöðublaði.

Flokkar og sætaröðun

Í sýningareglum á heimasíðu HRFÍ eru eftirfarandi skýringar á flokkum.

Ungviði: Ungviðaflokkur er fyrir hvolpa á aldrinum 4 – 6 mánaða. Hvolpurinn fær skriflega umsögn en einkunn er ekki gefin. Keppt er um sætaröðun. Sérlega lofandi hvolpar geta fengið Heiðursverðlaun. Hvolpur í fyrsta sæti sem jafnframt fær Heiðursverðlaun, keppir um titilinn ,,Besta ungviði tegundar”. Sá keppir síðan til úrslita um besta ungviði sýningar/dagsins. Sýningastjórn getur heimilað að fullbólusettir hvolpar allt niður í 3gja mánaða aldur taki þátt í minni sýningum félagsins, s.s. hvolpasýningum og deildarsýningum og séu þá, eftir atvikum, sýndir í ungviðaflokki.

Hvolpaflokkur: Hvolpaflokkur er flokkur fyrir hvolpa á aldrinum 6 – 9 mánaða. Hvolpurinn fær skriflega umsögn en ekki einkunn. Keppt er um sætaröðun. Sérlega lofandi hvolpar geta fengið Heiðursverðlaun. Hvolpur í fyrsta sæti sem jafnframt fær Heiðursverðlaun, keppir um titilinn ,,Besti hvolpur tegundar”. Sá keppir síðan til úrslita um besta hvolp sýningar/dagsins.

Ungliðaflokkur: Ungliðaflokkur er fyrir hunda á aldrinum 9 – 18 mánaða. Í ungliðaflokki fær hundur skriflega umsögn og einkunn. Þeir hundar sem hlotið hafa a.m.k. Very good, keppa um sætaröðun 1-4. Excellent hundar sem þykja svo framúrskarandi að gerð og byggingu og með svo óverulega galla að þeir geta talist framúrskarandi fulltrúar hundakynsins.

Unghundaflokkur: Unghundaflokkur er fyrir hunda á aldrinum 15-24 mánaða. Í unghundaflokki fær hundur skriflega umsögn og einkunn. Þeir hundar sem hlotið hafa a.m.k. Very good, keppa um sætaröðun 1-4. Excellent hundar sem þykja svo framúrskarandi að gerð og byggingu og með svo óverulega galla að þeir geta talist framúrskarandi fulltrúar hundakynsins, geta hlotið Meistaraefni. Hundar sem hljóta Meistaraefni færast upp í keppni um besta rakka/bestu tík tegundar.

Opinn flokkur: Opinn flokkur er fyrir hunda sem eru 24 mánaða og eldri. Hunda með íslenska meistaranafnbót (ISCH, ISSCH) er ekki hægt að skrá í opinn flokk. Í opnum flokki fær hundur skriflega umsögn og einkunn. Þeir hundar sem hlotið hafa a.m.k. Very good, keppa um sætaröðun 1-4. Excellent hundar sem þykja svo framúrskarandi að gerð og byggingu og með svo óverulega galla að þeir geta talist framúrskarandi fulltrúar hundakynsins, geta hlotið Meistaraefni. Hundar sem hljóta Meistaraefni færast upp í keppni um besta rakka/bestu tík tegundar.

Vinnuhundaflokkur: Vinnuhundaflokkur er fyrir hundakyn sem þurfa að skila vinnuprófi til að geta orðið alþjóðlegir meistarar, (C.I.B.), sbr. sérákvæði um meistarareglur fyrir einstök hundakyn. Flokkurinn er opinn hundum sem hafa uppfyllt kröfur skv. þeim og sem náð hafa 15 mánaða aldri. Ath. að vottorð um árangur þarf að berast í síðasta lagi fyrir lok skráningar. Í vinnuhundaflokki fær hundur skriflega umsögn og einkunn. Þeir hundar sem hlotið hafa a.m.k. Very good, keppa um sætaröðun 1-4. Excellent hundar sem þykja svo framúrskarandi að gerð og byggingu og með svo óverulega galla að þeir geta talist framúrskarandi fulltrúar hundakynsins, geta hlotið Meistaraefni. Hundar sem hljóta Meistaraefni færast upp í keppni um besta rakka/bestu tík tegundar.

Meistaraflokkur: Þessi flokkur er opinn fyrir hunda sem náð hafa viðurkenndum meistaratitli (C.I.B, C.I.E, ISSCH, ISCH eða sambærilegum titlum FCI aðildarlanda eða frá félögum viðurkenndum af FCI. Öldunga- eða ungliðameistaratitill er ekki gjaldgengur). Að baki slíkum titli þurfa að vera amk. tvö meistarastig frá landinu sem veitti meistaranafnbótina og hundarnir þurfa að hafa náð 15 mánaða aldri. Íslenskan meistara skal skrá í meistaraflokk, vinnuhundaflokk eða öldungaflokk. Íslenskan sýningameistara skal skrá í meistaraflokk eða öldungaflokk. Í meistaraflokki fær hundur skriflega umsögn og einkunn. Þeir hundar sem hlotið hafa a.m.k. Very Good, keppa um sætaröðun 1-4. Þeir hundar sem þykja svo framúrskarandi að gerð og byggingu og með svo óverulega galla að þeir geta talist framúrskarandi fulltrúar hundakynsins, geta hlotið Meistaraefni. Hundar sem hljóta Meistaraefni færast upp í keppni um besta rakka/bestu tík tegundar.

Öldungaflokkur: Til þátttöku í öldungaflokki má skrá hund sem náð hefur 8 ára aldri . Öldungur fær skriflega umsögn og einkunn. Öldungar með a.m.k. Very good keppa um sætaröðun 1-4. Öldungar í sérlega góðu formi geta hlotið Heiðursverðlaun. Excellent öldungar sem þykja svo framúrskarandi að gerð og byggingu og með svo óverulega galla að þeir geta talist framúrskarandi fulltrúar hundakynsins geta hlotið Meistaraefni. Hundar með Meistaraefni færast upp í keppni um besta rakka/bestu tík tegundar.

Besti öldungur: Rakki og tík með 1. sæti í öldungaflokki og Heiðursverðlaun eða Meistaraefni, keppa um titilinn Besti öldungur tegundar. Sigurvegari þeirrar keppni fer áfram í keppni um titilinn Besti öldungur sýningar. Hundur sem skráður er í öldungaflokk getur hlotið íslenskt meistarastig, en hann getur ekki keppt um alþjóðlegt meistarastig (CACIB) á alþjóðlegum sýningum.

Besti rakki tegundar / besta tík tegundar: Allir rakkar/tíkur sem hlotið hafa Meistaraefni keppa um sætaröðun 1-4 og titilinn Besti rakki tegundar / Besta tík tegundar.

Besti hundur tegundar: Besti rakki tegundar og besta tík tegundar keppa um titlana Besti hundur tegundar (BOB) og Besti hundur af gagnstæðu kyni (BOS). Dæmi fleiri en einn dómari viðkomandi tegund, skal sýningarstjórn tilnefna annan þeirra til að velja BOB. BOB keppir síðan um sætaröðun 1-4 í þeim tegundarhópi sem hundakynið tilheyrir.

Besti hundur tegundarhóps: Á alþjóðlegum sýningum keppir BOB hvers hundakyns um titilinn Besti hundur tegundarhóps (BIG) og sætaröðun 1-4. Tegundarhópar eru tíu og gilda reglur FCI um hvaða hundakyn tilheyra hverjum. Dæma má saman hunda í tegundarhópum 4/6 og 7/8.

Besti hundur sýningar: Sigurvegari hvers tegundarhóps keppir til úrslita og sætaröðun 1-4 í Besta hund sýningar (BIS).

Afkvæmahópur: Rétt til þátttöku með afkvæmahóp hefur tík/rakki með þrjú til fimm afkvæmi af sama hundakyni (ef við á: sama afbrigði hundakyns – getur átt sérstakan BOB fulltrúa). Afkvæmin verða að vera skráð til þátttöku og sýnd í öðrum flokkum sýningar, þó ekki í hvolpaflokkum. Undaneldisdýr verður að skrá til þátttöku á sýningunni en þarf ekki að sýna í öðrum flokkum til að geta keppt með afkvæmahóp. Undaneldisdýr skal hafa hlotið a.m.k. einkunnina “Good” á fyrri eða yfirstandandi sýningu. Afkvæmin mega ekki hljóta einkunnina 0 eða Ekki hægt að dæma. Aðeins má sýna undaneldisdýr með einn afkvæmahóp á sýningu. Eigandi/sýnandi undaneldisdýrs velur þau afkvæmi sem hann vill sýna í afkvæmahópi, gerir eigendum þeirra viðvart og skráir hópinn tímalega til keppni hjá hringstjóra. Hópurinn fær umsögn og einkunn sem ein heild. Megin áhersla er lögð á að hópurinn sé jafn að gerð og gæðum og samleitur undaneldisdýrinu og telst það hópnum frekar til framdráttar en sá árangur og einkunnagjöf sem einn einstakur hundur í hópnum hefur hlotið. Sýnanda/eiganda ber að sýna hund í afkvæmahópi, óski eigandi ræktunartíkur/hunds þess. Besti afkvæmahópur tegundar með Heiðursverðlaun keppir til úrslita um Besta afkvæmahóp sýningar/dagsins.

Ræktunarhópur: Í ræktunarhópi eru þrír til fimm hundar af sama hundakyni (ef við á: sama afbrigði hundakyns – getur átt sérstakan BOB fulltrúa) frá sama ræktanda. Ef hundarnir eru með ræktunarnafn, skulu þeir allir bera sama ræktunarnafn. Ef ræktandi er jafnframt meðræktandi að öðru goti (ekki sama ræktunarnafn), má ekki sýna þau afkvæmi saman í ræktunarhópi. Aðeins má sýna einn ræktunarhóp af sama hundakyni (sama afbrigði kyns) frá sama ræktanda (með sama ræktunarnafn) á viðkomandi sýningu. Hundar í ræktunarhópi geta verið úr öllum flokkum nema hvolpaflokkum og mega ekki hljóta 0 í einkunn eða ekki hægt að dæma. Ræktandi velur sjálfur þá hunda sem hann vill sýna sem fulltrúa ræktunar sinnar. Hann skal gera eigendum hundanna viðvart í tíma og skrá hópinn til keppni tímalega hjá hringstjóra. Ræktandi eða umboðsmaður hans (skv. skriflegu umboði) þarf að undirrita skráningablað. Sýnanda/eiganda ber að sýna hund í ræktunarhópi, óski ræktandi þess. Hópurinn fær umsögn og einkunn sem ein heild. Megin áhersla er lögð á að hópurinn sé jafn að gerð, gæðum og útliti, og telst það hópnum meira til framdráttar en árangur og einkunnagjöf, sem einstakur hundur í hópnum hefur hlotið. Besti ræktunarhópur tegundar með Heiðursverðlaun keppir til úrslita um Besta ræktunarhóp sýningar/dagsins.

Parakeppni: Í parakeppni eru rakki og tík af sömu tegund, í eigu sama/sömu aðila, sýnd saman. Hundar í parakeppni geta verið úr öllum flokkum nema hvolpaflokkum og mega ekki hljóta 0 í einkunn eða ekki hægt að dæma. Tilgangur parakeppni er að sýna fram á hve lík rakki og tík eru. Pörum innan sömu tegundar er raðað í sæti og ef þau þykja framúrskarandi að gæðum geta þau fengið Heiðursverðlaun. Besta par tegundar með Heiðursverðlaun keppir til úrslita um Besta par sýningar/dagsins.

Borðar
Sætaröðun:

 1. sæti, rauður.
 2. sæti, blár.
 3. sæti, gulur.
 4. sæti, grænn.

Einkunn í gæðadómi:

Excellent, rauður.

Very Good, blár.

Good, gulur.

Sufficient, grænn.

0 einkunn fær ekki borða.

Aðrir borðar í gæðadómi:

Heiðursverðlaun, fjólublár.

Meistaraefni, bleikur.

Íslenskt meistarastig, fánalitirnir.
Alþjóðlegt meistarastig (CACIB), hvítur.

Vara-alþjóðlegt meistarastig (Reserve CACIB), appelsínugulur.

Sjá fleiri liti og nánar um borða hér: http://www.hrfi.is/borethar-aacute-syacuteningum.html

Skipurit fyrir flokka á sýningum HRFí: (http://www.hrfi.is/syacuteningaskipurit.html).

Meistaratitlar

Tekið úr sýningareglum HRFÍ.

Hundur í tegundahópi 7 þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði til að hljóta titilinn íslenskur meistari (ISCh):

 1. Að hafa hlotið þrjú meistarastig á sýningum HRFÍ, hjá þremur mismunandi dómurum, þar af eitt stig eftir 24 mánaða aldur (24 mán.+1 dagur).
 2. Hundur þarf að vera röntgenmyndaður m.t.t. mjaðmaloss (HD) og niðurstöður þurfa að liggja fyrir.
 3. Hundur þarf að hafa varanlegt auðkenni (örmerki /húðflúr).
 4. Hundur þarf að standast vinnueiginleikapróf sem hér segir: Að hljóta a.m.k. 2.

einkunn í unghundaflokki eða 3. einkunn í opnum flokki í veiðiprófi viðurkenndu af HRFÍ.

Einnig þarf hundur úr tegundahópi 7 að uppfylla eftirtalin skilyrði til að hljóta titilinn Alþjóðlegur meistari (C.I.B.):

 1. Tvö alþjóðleg meistarastig (CACIB) í einu eða fleiri löndum, frá tveimur dómurum af mismunandi þjóðerni og frá tveimur FCI aðildarlöndum. Eitt ár og einn dagur verða að líða milli fyrsta og síðasta alþjóðlegs meistarastigs. Dæmi: frá 1. janúar 2015 til 1. janúar 2016.
 2. Hafa lokið veiðiprófi í samræmi við eiginleika viðkomandi hundakyns á veiðiprófi viðurkenndu af HRFÍ.

Íslenskur sýningameistari (ISShCh)

Hundar af vinnuhundakynjum geta orðið íslenskir sýningameistarar (ISShCh) eftir að hafa fengið þrjú stig til meistara á þremur sýningum HRFÍ, hjá þremur mismunandi dómurum. Eitt af þeim stigum skal veitt eftir 24 mánaða aldur hundsins (24 mán.+ 1 dagur). Hundur sem hlotið hefur sambærilega sýningameistaranafnbót hjá hundaræktarfélagi viðurkenndu af HRFÍ, þarf eitt íslenskt meistarastig á sýningu á vegum HRFÍ, eftir 24 mánaða aldur (24 mán.+ 1 dagur), til að geta fengið íslenska sýningameistaranafnbót. Þegar hundur hefur hlotið staðfestingu á íslenskri meistara- eða sýningameistara-nafnbót, skal hann sýndur í meistara-, vinnuhunda- eða öldungaflokki. Ekki er hægt að skrá hund til þátttöku í meistaraflokki nema að staðfesting um meistaranafnbótina liggi fyrir áður en skráningafresti lýkur.

Alþjóðlegur sýningameistari (C.I.E.)

Hundar af vinnu- og veiðihundakyni sem sýna þurfa fram á árangur í vinnuprófum geta hlotið alþjóðlegan sýningameistaratitil með því að hljóta fjögur alþjóðleg meistarastig (CACIB) á fjórum alþjóðlegum sýningum frá dómurum af a.m.k. þremur þjóðernum frá FCI aðildarlöndum. A.m.k. eitt ár verður að líða frá því að hundur fær sitt fyrsta stig og til þess fjórða.

Norðurlandameistaratitill (NordUCh)

Til að hundur geti fengið Norðurlandameistaranafnbót (NordUCh) þarf hann að hafa hlotið meistaranafnbót hjá þremur hundaræktarfélögum á Norðurlöndum (NKU). Eigandi getur sótt um þennan titil á þar til gerðu eyðublaði á skrifstofu HRFÍ. Með umsókninni skulu fylgja þau gögn sem sanna að hundurinn uppfylli þær kröfur sem gerðar eru hjá Hundaræktarfélögunum á Norðurlöndum (FCI). Veiting á þessum titli er alfarið háð samþykki viðkomandi Hundaræktarfélaga.

Öldungameistaratitill (ISVetCh)

Til að hljóta öldungameistaranafnbót (ISVetCh) þarf hundur að fá þrjú öldungastig frá þremur mismunandi dómurum. Eigandi getur sótt um titilinn á þar til gerðu eyðublaði á skrifstofu HRFÍ. Með umsókninni skulu fylgja nauðsynleg gögn. Öldungameistari er ekki sýningameistari í skilningi FCI reglna, þ.a. titillinn veitir ekki þátttökurétt í meistaraflokki.

Ungliðameistaratitill (ISJCh)

Til að hljóta ungliðameistaranafnbót (ISJCh) þarf hundur að fá tvö ungliðastig frá tveimur mismunandi dómurum. Eigandi getur sótt um titilinn á þar til gerðu eyðublaði á skrifstofu HRFÍ. Með umsókninni skulu fylgja nauðsynleg gögn. Ungliðameistari er ekki sýningameistari í skilningi FCI reglna, þ.a. titillinn veitir ekki þátttökurétt í meistaraflokki.

Skammstafanir

CACIB: Alþjóðlegt meistarastig

Res-CACIB: Vara-alþjóðlegt meistarastig

FCI: Alþjóðasamtök hundaræktafélaga

NKU: Samtök norrænna hundaræktarfélaga

HD: Mjaðmalos

AD: Olnbogalos

HRFÍ: Hundaræktarfélag Íslands

C.I.B: Alþjóðlegur meistari

C.I.E: Alþjóðlegur sýningameistari

ISCh: Íslenskur meistari

ISShCh: Íslenskur sýningameistari

ISVetCh: Íslenskur öldungameistari

ISJCh: Íslenskur ungliðameistari