Mjaðmalos

HD – Hip-dysplasia – Mjaðmalos

Mjaðmamynd

Flestir þekkja til HD og þeirra vandamála sem því fylgir. Mjaðmalos (HD) er þróunargalli í mjaðmaliðum hunda og getur verið í öðrum eða báðum liðum. Gallinn lýsir sér þannig að mjaðmaskál og lærleggur passar ekki hvort öðru og kölkun myndast kringum liðinn. Einnig getur orðið óeðlilegt slit inni í liðnum sem áfram getur orðið til þess að þrýstingsskaðar myndast á hlut liðarins. Hlutar af liðbrjóskinu eyðast og beinvefur vex í staðinn í tilraun líkamans til að lagfæra skaða sem orðið hefur.

Þessi galli greinist í nokkur stig sem eru eftirfarandi:
A og B mjaðmir = Frír
C mjaðmir = Vægt
D mjaðmir = Miðlungs
E mjaðmir = Mikið

Þróun HD í hundum er blanda af arfgengni og umhverfisþáttum. HD getur þróast sem afleiðing vegna misræmis í styrk mjúkvefja sem styður mjaðmaliðinn og líffræðilegra þátta tengdum þyngdaraukningu. Þetta verður til þess að samsvörun milli mjaðmaskálar og lærleggs tapast. Afleiðingin verður sú að mjaðmaskálin grynnist, lærleggshöfuð afmyndast og kölkun myndast.

Næring er sá umhverfisþáttur sem hefur mest áhrif á þróun vöðva og beina í hundum. Vöxtur hunda og þá sérstaklega hunda af stærri tegundum er mjög hraður miðað við mörg önnur dýr. Hundar vaxa mjög hratt á stuttum tíma sem gerir það að verkum að bein þeirra eru mjög viðkvæm fyrir skemmdum ef næring á þessu mikilvæga tímabili er ekki rétt. Þeir næringarþættir sem eru mikilvægastir eru orka (forðist offóðrun), D vítamín (auka inntaka óheppileg þar sem hún eykur upptöku kalks) og kalk (of mikið kalk er einn af stærstu áhættuþáttum beinsjúkdóma í uppvexti).

Það lítur út fyrir að tímabilið frá 3 – 8 mánaða aldurs hundsins sé mikilvægast og að fyrstu 6 mánuðirnir í lífi hvolpsins séu mikilvægastir með tilliti til þróunar HD

Öðru hvoru koma kröftug HD tilfelli á óvart í einstaka gotum, jafnvel frá hundum sem hafa áður gefið af sér HD frí got. Sjálfsagt getur umhverfisþátturinn spilað stórt hlutverk þótt hvolparnir hafi allir fengið sömu byrjun í lífinu. Reynslan sýnir að það er mikilvægur genatískur þáttur með í myndinni. Ekki eingöngu „fjöldi” HD-gena en einnig samspilið milli genanna hefur þýðingu. HD-genin hverfa ekki þótt hægt sé að „þynna” þau út. Þau þéttast auðveldlega aftur og geta valdið vandamálum í seinni kynslóðum.

(Lauslega þýtt af heimasíðu www.avl.no)