Sækivinna

Að kenna hundi að sækja

Mig langar til að miðla af minni reynslu í þessu vegna þess að ég tel að mér hafi gengið þetta þokkalega með þá setter hunda sem ég hef verið með undanfarin ár.

Ég er með í höndunum írskan setter sem fer óhikað út í straumharða aðveitu skurði Blöndulóna eftir gæs og skilar henni í hendi.  Ég held að það geti ekkert verið flottara, jafnvel hjá labba.  Hann er reyndar skotsækir en það er ekkert að plaga mig og er ekki mikið mál að laga ef menn vilja.

Ef rétt er að farið er yfirleitt nokkuð lítið mál að kenna þeim að sækja þá bráð sem við erum að veiða hér.  En það á við um setter eins og aðra veiðihunda að þetta er alltaf þolinmæðisverk að kenna sókn.

Það er hundinum eðlislægt að sleppa bráðinni við fætur húsbóndans eða réttara sagt við mörk hringsins sem allar skepnur, að manninum meðtöldum, draga utan um sig og ætlast til að ókunnugir séu ekki að fara mikið inn fyrir óboðnir.  Góð “Pickupp lína” er lykill karlmanns að þessum hring hjá konum.

Það verður að byrja á grunninum og ekki fara á næsta stig fyrr en fullkomnun er náð á fyrsta stigi. Þolinmæði!

Best er að kenna þeim skipunina “Halda”.  Láttu hundinn setjast í ró við hlið þér.   Settu, jafnvel með þvingun, t.d. kústskaftsbút upp í kjaftinn og lyfta undir neðri skolt og segðu “halda” um leið og jafnvel klappaðu á koll og hrósaðu.  Stutt fyrst og svo lengja tímann eftir því sem líður á.  Fjarlægðina sem þú ferð frá honum lengir þú líka smá saman í svona 4 til 6 metra.  Þetta getur tekið nokkra daga, jafnvel vikur að kenna honum að sitja kjurr og halda á einhverju og sleppa ekki fyrr en þú gengur að honum aftur og segir takk eða gefa. Þolinmæði!

Í raun ertu að kenna honum að skipunin “halda” þýðir að hann á að sitja kjurr og ekki sleppa spýtunni fyrr en hann fær skipun um það.

Það getur þurft að beita nokkurri ákveðni við þetta en varast ber að gera hundinn smeykan.  Mikilvægt í þessu er að hrósa með ýktu látbragði ef hann gerir eitthvað rétt.  Ef hundurinn sleppir án þess að hafa fengið “gefa” skipun segir þú “nei” og leiðréttir með því að setja prikið aftur upp í hann og segir “halda”.  Muna að hafa tíman ekki langan fyrst en þyngja smátt og smátt.  Þolinmæði!

Þegar þú ert búinn að láta hundinn skilja þessa skipun og hann heldur án vandræða og sleppir ekki fyrr en að hann hefur fengið skipunina “gefa” þá er komið að næsta stigi.

Þú lætur hundinn sitja og “halda”.  Svo bakkar þú frá honum venjulega vegalengd, ferð niður á hækjur þér og breiðir út faðminn og segir “kom”.

Ef þetta gengur ekki þá bakkar þú til baka í þjálfuninni og reynir aftur að nokkrum dögum liðnum.  Svo smá lengir þú fjarlægðina. Þolinmæði.

Þegar þessu hér að undan er náð með nokkurri nákvæmni þá er farið á þriðja stig sem er að láta hundinn sitja á hæl og bíða eftir að fá skipun um að sækja dummí sem þú hendir frá þér.  Ég hef gert þetta allt innan dyra.  Það er til þess að ekkert annað sé að trufla. (Fuglar, flugur, lykt ýmiskonar).  Einungis fáeina metra.  Reyna að stilla þessu þannig upp að hann komist ekki hjá því að koma til þín en ekki fram hjá þér og í bælið t.d.  2ja metra breiður gangur er mjög hentugur.

Ef hundurinn sleppir dummíinu við mörks hringsins, sem ég efast reyndar um að hann mundi gera ef rétt er að farið á undan, þá gerir þú eftirfarandi: Sýnir þolinmæði!

Þegar hundurinn er á leið að þér með dummíið segir þú “halda” áður en hann kemur að mörkum hringsins og þá á hann að setjast og halda dummíinu en ekki sleppa.  Svo gengur þú til hans og segir takk og hrósar þegar hann gerir rétt.  Svo smátt og smátt reynir þú að stytta fjarlægðina og spila á hann t.d. með að taka skref á móti honum þegar hann er að koma inn.

Gott ráð er líka að gera sig lítinn þegar hann er á leið inn og fara niður á hækjur sér og opna faðminn, brosa og hvetja. Þolinmæði!

Þegar þetta er orðið fullkomið er kominn tími til að færa sig út í garð og svo er bara galdurinn að þyngja alltaf meira og meira og muna þolinmæðina.

Ég er búinn að ganga í gegnum þetta með nokkra hunda undanfarin ár og það er mjög misjafnt hve auðvelt þetta er.  Með ensku setana þurfti ég að byrja algjörlega frá grunni og eftir að “halda” skipun var komin inn þurfti ég að ganga með þá út og sækja þetta með þeim nokkru sinnum.

Ég hef tekið þannig á þessu að ef ég er búinn að gefa skipun “sækja” þá skulu þeir klára það dæmi og ekki komast upp með að fara að gera eitthvað annað.  Það verður alltaf að vera ákveðin alvara í þessum æfingum þó ekki of langt í gamanið.  Ef þeir ekki sóttu þá fór ég með þá að dummíinu og við sóttum það saman og gengum svo inn saman, sest niður og gefið við “gefa” skipun.  Svo var bara hætt þann daginn og vonað að hundurinn og ég væri betur upplagður næsta dag. Þolinmæði!

Alls ekki láta þá leika með dummíið.  Dummí er dauðans alvara sagði einhver.  Það getur þó verið gott að sprella með það fyrir framan hann til þess að vekja hann upp en hundur á ekki að leika einn að dummíi eða komast upp með að leika eða fara í eltingaleik við þig með það.

Ég vona að þetta komi að einhverju gagni og mundu, umfram allt að sýna þolinmæði.
Var ég kannski búinn að minnast á það?

(Vilhjálmur Ólafsson)